EFLA fékk viðurkenningu sem Framúrskarandi fyrirtæki samkvæmt mati Creditinfo í liðinni viku. Þetta er 15. árið í röð sem EFLA hlýtur þessa viðurkenningu.
Efst í okkar atvinnugrein
EFLA er eitt af 53 fyrirtækjum sem hefur verið Framúrskarandi frá upphafi. Alls fengu 1.136 fyrirtæki þessa viðurkenningu í ár og stóðust því ströng skilyrði Creditinfo til að verða Framúrskarandi fyrirtæki. Fyrirtækjum á listanum fjölgaði um 12% á milli ára.
EFLA var í 49. sæti á heildarlista allra fyrirtækja á þessum lista, en í 1. sæti á lista yfir fyrirtæki í sinni atvinnugrein eða fyrirtækja þar sem stunduð er sérfræðileg-, vísindaleg- og tæknileg starfsemi.
Öflugt starfsfólk
Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, þakkar skýrri stefnu og viðleitni við að reyna sífellt að gera betur þennan góða árangur. „Við höfum lagt mikla vinnu í að setja skýr markmið og reynum ávallt að bæta okkar starfsemi eins og mögulegt er. Við erum ótrúlega stolt af þessum árangri. Það er alls ekki sjálfsagt að vera á þessum stað sem sést best á því að aðeins 52 önnur fyrirtæki hafa náð sama árangri og við samkvæmt þessum mælikvarða,” segir Sæmundur sem þakkar fyrst og fremst mikilli og góðri vinnu starfsfólks og eigenda þennan árangur. „Það er sannarlega heiður að vera hluti af þessum öfluga hópi.“
Hann segir að fyrir samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sé heilbrigður og ábyrgur rekstur alltaf lagður til grundvallar. „Þannig tryggjum við starfsfólki okkar góð vinnuskilyrði og samkeppnishæf laun. Þannig veitum viðskiptavinum okkar góða þjónustu. Þannig stöndum við undir skatta- og samfélagslegum skyldum og skilum eigendum okkar arði af þeirra fjárfestingu. Og síðast en alls ekki síst þá getur fyrirtækið tekið þátt í þróun samfélagsins á jákvæðan og uppbyggilegan hátt” bætir Sæmundur við.
Byggt á sterkum stoðum
CreditInfo framkvæmir árlega greiningu á fjárhagslegum styrk og stöðugleika íslenskra fyrirtækja. Til þess að fyrirtæki komist inn á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki þarf rekstur fyrirtækis að vera byggður á sterkum stoðum og hafa mikinn stöðugleika. Þau fyrirtæki eru jafnframt líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta. Sæti á þessum lista er því eftirsóknarvert og fyrirtækin njóta aukins trausts.