Frá Suður-Kóreu til Siglufjarðar

07.11.2024

Fréttir
Fjöldi fólks á uppstilltri mynd.

Fjölmenni heimsótti EFLU Norðurlandi í liðinni viku þegar aðilar sem tengjast verkefni Grænafls á Siglufirði komu í heimsókn. Auk fulltrúa frá Grænafli var fólk frá samstarfsaðilum þeirra frá Suður-Kóreu.

Undirbúa breytingar

Grænafl vinnur að orkuskiptaverkefni fyrir smábátaflotann með samstarfsaðilum frá Suður-Kóreu, auk EFLU og HS Orku. Fyrirtækið á nú í samstarfi við Korean Maritime Institute (KMI), opinbera stofnun í Suður-Kóreu á sviði sjávarútvegs, og RIMS (Research Institute of Medium & Small Shipbuilding). Þar að auki koma fjögur suðurkóresk fyrirtæki að verkefninu.

Suður-Kóreska stofnunin, KMI, og RIMS sjá um tæknilega yfirumsjón verkefnisins. Tæknimenn nýttu tímann á Íslandi til að framkvæma nákvæmar mælingar og þrívíddarteikningar af fyrsta bát verkefnisins, Oddverja, til að undirbúa væntanlegar breytingar. Gert er ráð fyrir því að umfangsmiklar breytingar verði gerðar á bátum svo þeir geti gengið fyrir rafmagni.

Starfsfólk EFLU þakkar þessu fólki fyrir heimsóknina og hlakkar til að stíga næstu skref í þessu verkefni.