Skipulagsteymi EFLU hefur unnið fjölda deiliskipulaga m.a. fyrir fjallaskála í sveitarfélögum á Suðurlandi. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð og Grímnes- og Grafningshreppur.
EFLU vinnur deiliskipulag fyrir fjallaskála
Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags. Deiliskipulag byggir á stefnu aðalskipulags og kveður nánar á um útfærslu þess. Ákvæði um gerð deiliskipulags eiga jafnt við um þéttbýli og dreifbýli. Deiliskipulag er unnið skv. skipulagslögum nr. 123/2010 m.s.br
Starfsfólk EFLU er ráðgjafar við skipulagsvinnuna varðandi framsetningu skipulags, stærðir og afmörkun lóða, staðsetningu bygginga, stærð og útlit bygginga m.a. út frá heimildum í aðalskipulagi og út frá áætlaðri notkun mannvirkja. Útbúnir eru skipulagsuppdrættir og skipulagsskilmálar settir fram í greinargerð. Skipulagið er unnið í samráði við verkkaupa en skipulag er alltaf á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.
Í Rangárþingi eystra var unnið deiliskipulag fyrir skála í Húsadal, Langadal, Slyppugil og Bása í Þórsmörk. Deiliskipulag er í samræmi við Aðalskipulag Rangárþings eystra 2012-2024.
Í Rangárþingi ytra var unnið deiliskipulag fyrir Hungurfit, Krók og Landmannahelli. Deiliskipulag er í samræmi við Aðalskipulag Rangárþings ytra 2016-2028.
Í Ásahreppi er unnið að gerð deiliskipulags fyrir skálana Gásagust, Hald, Hvanngiljahöll og Versali. Deiliskipulag er í samræmi við Aðalskipulag Ásahrepps 2020-2032.
Í Grímsnes- og Grafningshreppi er unnið að gerð deiliskipulags fyrir Gatfellsskála og skála við Lambahlíðar. Deiliskipulag er í samræmi við Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032.
Í Bláskógabyggð var unnið deiliskipulag fyrir skálana Bratta, Fremstaver, Geldingafell, Skálpanes, Árbúðir og Svartárbotna. Unnið er að gerð deiliskipulags fyrir skálana Skjaldborg og Kringlumýri. Deiliskipulag er í samræmi við Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027.
Í Hrunamannahreppi var unnið deiliskipulag fyrir skálana Fosslæk, Leppistungur, Miklöldubotna, Frægðarver, Rofshóla, Heiðará, Helgaskála, Efri-Kisubotna, Grákoll og Svínárnes, auk breytingar á gildandi deiliskipulagi Kerlingarfjalla. Deiliskipulag er í samræmi við Aðalskipulag Hrunamannahrepps 2016-2032.
Sýnileg mannvirki öryggisatriði
Áskoranir við vinnu við deiliskipulög fjallaskála eru að mannvirki falli vel að landi en séu jafnframt falleg og sýnileg. Sýnileg mannvirki geta verið öryggisatriði ef ferðamenn lenda í þoku eða snjókomu. Á hálendinu er mikilvægt að mannvirki séu látlaus og ferðamenn upplifi hálendis- og víðernistilfinningu, en jafnframt að veitt sé lágmarks þjónusta. Á hálendinu þarf að taka tillit til víðerna, ýmis konar verndar t.d. á gróðri/vistgerðum, jarðmyndunum og svæðum.
Nánari upplýsingar um deiliskipulag og þjónustu EFLU á því sviði má finna á vefsíðu EFLU.