EFLA tók þátt í Danmerkurheimsókn

09.10.2024

Maður og kona á ráðstefnu.

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, og Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri orku hjá EFLU, fylgdu forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, í heimsókn hennar til Danmerkur síðustu daga.

Áhersla á græna orku, sjálfbærni og nýsköpun

Með þessari heimsókn fengu fulltrúar EFLU einstakt tækifæri til að tengjast aðilum í atvinnulífinu, deila sérfræðiþekkingu og skoða möguleg samstarfsverkefni sem geta flýtt fyrir orkuskiptum og stuðlað að sjálfbærri þróun í báðum löndum. En EFLA opnaði nýverið skrifstofu í Kaupmannahöfn og dótturfyrirtæki í Danmörku.

Í þessari heimsókn forseta Íslands til Danakonungs var lögð áhersla á að efla samstarf þjóðanna, einkum í grænni orku, sjálfbærni og nýsköpun.

Fulltrúar EFLU tóku þátt í ýmsum viðburðum, meðal annars heimsóknum til State of Green og Dansk Industri, þar sem íslenskir og danskir stjórnendur miðluðu þekkingu sinni og litu til tækifæra til samstarfs. Til umfjöllunar voru ýmis mikilvæg málefni, svo sem endurnýjanlegar orkulausnir, loftslagsaðgerðir og hlutverk gervigreindar í mótun atvinnugreina í framtíðinni.