EFLA styrkir Ljósið

27.06.2023

Fréttir
Three individuals standing together with smile on their faces

EFLA mun styrkja Ljósið, endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda, í leit félagsins að nýju húsnæði. Félagið stendur nú fyrir söfnun fyrir þessu nýja húsnæði sem kallast Klukk, þú ert´ann og hefur verið áberandi á samfélags- og ljósvakamiðlum að undanförnu.

EFLA styrkir Ljósið

Stuðningur EFLU felst í því að vinna þarfa- og kostnaðargreiningu fyrir nýtt húsnæði Ljóssins. Batteríið arkitektar munu vinna að húsnæðinu ásamt EFLU, en arkitektastofan hefur unnið með og stutt Ljósið frá upphafi.

Húsnæði Ljóssins er hjarta starfseminnar þar sem fjölbreytt dagskrá er stafrækt. Hjá Ljósinu starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga sem styðja skjólstæðinga Ljóssins sem eru um 600 í hverjum mánuði. Þjónusta Ljóssins felst í líkamlegri, andlegri og félagslegri endurhæfingu. Í því felst ráðgjöf frá fagaðilum eins og iðjuþjálfum, sálfræðingum og markþjálfum þar sem tilgangurinn er að ýta undir bata, vinna með styrkleika og finna leiðir til að viðhalda eða finna ný hlutverk.

Önnur þjónusta Ljóssins er t.d. líkamleg þjálfun undir stjórn sjúkraþjálfara, jógahópar, gönguhópar, heilsutengd námskeið fyrir alla þá sem sækja þjónustu í Ljósinu, bæði þá sem greinast og fyrir alla fjölskylduna. Þá eru virkir handverkshópar, boðið er upp á nudd, snyrtimeðferðir og fleira. Markmiðið með þjónustunni er heildræn nálgun á þarfir einstaklingsins og að ýta undir virkni og félagslega þátttöku. Einnig býður Ljósið upp á þjónustu fyrir nánustu aðstandendur krabbmeinsgreindra og námskeið fyrir börn.

Vinna EFLU við þarfa- og kostnaðargreininguna mun hefjast á næstu vikum og er áætlað að henni verði lokið í haust. Við hvetjum öll sem geta að leggja Ljósinu lið í þessu mikilvæga verkefni. Það er hægt að gera á vefsíðu félagsins, ljosid.is.

Three individuals standing together and shaking hands in front of a building with the sign "LJOSID"

Á meðfylgjandi mynd má sjá þegar Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá EFLU, og Erna Magnúsdóttir, framkvæmdarstýra Ljóssins, handsöluðu samkomulagið á dögunum. Með þeim er stjórnarformaður Ljóssins, Brynjólfur Eyjólfsson.