EFLA verkfræðistofa hefur gengið frá kaupum á ráðgjafarfyrirtækinu Ispol Projekt í Póllandi. Ispol sérhæfir sig í alhliða undirbúningi og hönnun flutningslína raforku og tengivirkja. Þar með eru taldar loftlínur, jarðstrengir og ljósleiðarar ásamt háspennubúnaði.
EFLA kaupir ráðgjafarfyrirtæki í Póllandi
Meðal helstu viðskiptavina Ispol Projekt eru PSE, opinbert fyrirtæki sem á og rekur pólska raforkuflutningskerfið, rafdreifiveitur í Póllandi og verktakar á þessu sviði. EFLA hefur í yfir áratug átt í góðu samstarfi við Ispol og átti fyrir lítinn hlut í fyrirtækinu en eignast það nú að fullu. Hjá Ispol starfa um 30 manns og eru höfuðstöðvar starfseminnar í Lodz í Póllandi.
EFLA verkfræðistofa er alhliða ráðgjafarfyrirtæki á fjölbreyttum sviðum verkfræði, tækni og tengdra greina. Fyrirtækið hefur áratuga reynslu og þekkingu í uppbyggingu og þróun raforkuflutnings- og dreifikerfa, og er leiðandi í hönnun orkuflutningsmannvirkja. EFLA er með starfsemi í dóttur- og hlutdeildarfélögum í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi og Tyrklandi, auk þess að vinna að verkefnum víða um heim.
Með kaupum á Ispol eignast EFLA leiðandi ráðgjafarfyrirtæki í raforkuflutnings- og dreifikerfum í Póllandi, sem EFLA getur styrkt enn frekar á þeim markaði. Pólska hagkerfið hefur þróast með afar jákvæðum hætti á undanförnum áratugum með öflugum hagvexti. Áfram er gert ráð fyrir hraðri uppbyggingu og umbótum á orkuinnviðum landsins, þar sem Ispol stendur vel. Samhliða frekari þróun í Póllandi styrkja þessi kaup ekki síður þekkingu og samkeppnishæfni EFLU og tækifæri í hinu alþjóðlega umhverfi.