EFLA hlýtur nýsköpunarstyrk frá framleiðanda Fortnite

14.12.2020

Fréttir
Two men at a exhibition, with one man demonstrating a VR set

EFLA hlýtur nýsköpunarstyrk frá Epic Games til þróunar á rauntímahermi.

Bandaríski tölvuleikjarisinn Epic Games sem framleiðir meðal annars hinn vinsæla fjölspilunarleik Fornite hefur veitt EFLU nýsköpunarstyrk til að þróa rauntímahermi.

Hermirinn verður knúinn áfram með leikjavélahugbúnaðinum Unreal Engine sem er notaður til að búa til og keyra marga af vinsælustu tölvuleikjum heimsins í dag. Hann mun nýtast EFLU í framsetningu verkefna þar sem notandinn getur upplifað með eigin augum á einungis nokkrum sekúndum hvernig umhverfið hefur breyst í tímans rás.

Stafræn tímavél

Herminn mætti því kalla nokkurs konar stafræna tímavél í þrívídd sem gerir notandanum kleift að stjórna hraða tímans og ferðast aftur á bak og áfram. Notandinn getur því með hjálp hermisins upplifað þau fyrirséðu áhrif sem munu verða á byggingar og umhverfi þeirra ef ekkert er gert til að spyrna á móti. Þannig verður einnig hægt að sjá hvernig ákveðin svæði og staðir hafa tekið breytingum síðustu áratugina eða aldir.

„Styrkurinn frá Epic Games er frábær viðurkenning á því öfluga og framsækna starfi sem við hjá EFLU höfum unnið í sambandi við framsetningu á verkefnum í rauntíma og hvernig við sjáum fyrir okkur að þróunin verði á næstu árum. Það verður áhugavert að sjá viðbrögð notenda við þessum hermi þegar þeir geta séð hvaða áhrif áratugir og aldir hafa á umhverfið og hluti í nærumhverfi okkar. Það er ánægjulegt að vera komin í hóp framsækinna fyrirtækja sem hafa fengið styrk frá Epic Games en þau eru mjög kröfuhörð til þeirra verkefna sem hljóta styrki.“ segir Þröstur Thor Bragason, miðlunarfræðingur hjá EFLU.

Headshot of a man

Öflugt nýsköpunarstarf

Epic Megagrant sjóðurinn var settur á laggirnar til að hvetja til enn frekari nýsköpunar og þróunar á sem flestum sviðum stafrænnar miðlunar. Hjá EFLU er stafrækt öflugt nýsköpunarstarf og markmið verkefnisins er að ryðja brautina fyrir innleiðingu á rauntímatækni í verkefnavinnu félagsins. Styrkurinn veitir kröftuga innspýtingu í þróun þessarar tækni sem ryður sér hratt til rúms þvert á svið verkefna sem tengjast verkfræði, arkitektúr og hönnun. Fyrirhugað er að rauntímahermirinn verði tilbúinn á haustmánuðum 2021.

Hægt er að lesa meira um styrkveitingar Epic Games á vefnum þeirra.

Epic megagrants recipient text