Fulltrúar EFLU tóku þátt á HYDRO 2024, árlegri ráðstefnu um vatnsafl sem haldin var í Graz í Austurríki dagana 18.-20. nóvember. Árni Sveinn Sigurðsson, sérfræðingur í iðnaðar- og orkumálum hjá EFLU, og Hjalti Már Bjarnason, svæðisstjóri EFLU á Norðurlandi, sóttu ráðstefnuna fyrir hönd EFLU.
Kynna EFLU og kynnast öðrum
Á ráðstefnunni gefst fulltrúum EFLU tækifæri til að kynna fyrirtækið sérstaklega fyrir þeim sem starfa innan þessa geira. Einnig er þetta tækifæri til að viðhalda góðum tengslum við tengiliði EFLU á þessu sviði víða um heim, en um 1.100 manns sækja ráðstefnuna. EFLA er samstarfsaðili margra þessara tengiliða í íslenskum verkefnum.
Starfsfólk EFLU leggur einnig áherslu á tengslamyndun við framleiðendur, þjónustuaðila, verkfræðiráðgjafa, orkufyrirtæki og hagsmunaaðila á breiðum grunni. Einnig er HYDRO góður vettvangur fyrir verkefnaöflun á þessu sviði.
Á ráðstefnunni var hægt að sækja tugi áhugaverðra erinda um tækninýjungar, þróun í geiranum og verkefni í vatnsafli um allan heim, þ.á.m. erindi þar sem fjallað var um stórar sem smáar virkjanir, dæluvirkjanir, umhverfismál, nýtingu gervigreindar og vélræns náms í hönnun og rekstri.
Það var Íslandsstofa sem sá um skipulagningu og þátttöku íslenskra orkufyrirtækja og verkfræðiráðgjafa á þessari ráðstefnu auk þess að vera með kynningarbás á sýningarsvæði hennar. Hópurinn sem ferðaðist til Austurríkis á þeirra vegum taldi tæplega 20 manns og voru fulltrúar frá Landsvirkjun, COWI og Verkís, auk EFLU.