Deilibílar í þremur sveitarfélögum

11.10.2021

Fréttir
A group of three people posing with a Hyundai Zipcar in a parking lot

Deilibíll Hafnfirðinga. Til vinstri: Gísli frá Zipcar, Daði Baldur frá EFLU og Arnþór frá Zipcar.

Hafnarfjarðarbær, Akureyrarbær og Garðabær eru þátttakendur í tilraunaverkefni um deilibíla sem leitt er af EFLU í samstarfi við Zipcar deilibílaleigu. Verkefnið hlaut styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og verður til reynslu næstu sex mánuði.

Deilibílar í þremur sveitarfélögum

Rannsóknin hefur þann tilgang að meta áhrif þess að innleiða og efla vöxt deilibíla hjá sveitarfélögunum þremur með fjárhagsaðstoð til deilibílaþjónustu. Framlag sveitarfélaganna felst fyrst og fremst í úthlutun og merkingu bílastæðis fyrir deilibíl og aðstoða eins og kostur er við innleiðingu þjónustunnar. Mun EFLA, á meðan á tilraunaverkefni stendur, standa að rannsóknum á ferðavenjum og viðhorfi ásamt rýni viðeigandi gagna. Verkefnið hlaut brautargengi úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og er reynslutímabilið sex mánuðir. Að þeim tíma loknum veltur framhald verkefnis á áhuga og fjölda notenda.

Stuðlað að breyttum ferðavenjum

Hugmyndafræðin um deilibíla eru vel þekkt víða um heim og hafa rannsóknir sýnt að þeir geti spilað stórt hlutverk í þeirri vegferð íbúa að lifa án einkabílsins og stuðla þannig að breyttum ferðavenjum. Hér á landi hefur þessi þjónusta aðeins verið í boði miðsvæðis í Reykjavík og í Kópavogi en verður nú til a.m.k. næstu sex mánaða einnig í boði í Hafnarfirði, Garðabæ og á Akureyri.

Einn deilibíll verður aðgengilegur íbúum og starfsfólki fyrirtækja þessara sveitarfélaga. Vonir standa til þess að eftir þessa sex mánuði verði deilibílinn sjálfbær í rekstri og að þannig skapist rekstrargrundvöllur fyrir deilibílaþjónustu í þessum sveitarfélögum til frambúðar.

Allar nánari upplýsingar um aðgengi deilibílanna, skráningu og bókun á þjónustu er að finna á vefsíðu Zipcar.

Fréttir um verkefnið hjá sveitarfélögunum

A group of people posing with a Hyundai Zipcar in a parking lot

Fulltrúar Hafnarfjarðar, Zipcar og EFLU stilltu sér upp við deilibílinn.