Hjá EFLU starfa sérfræðingar sem hafa víðtæka reynslu og þekkingu á lausnum er snúa að vistvænni og sjálfbærri hönnun skipulags og mannvirkja, meðal annars í formi réttindi til að sinna BREEAM vistvottunum fyrir skipulagsáætlanir, nýbyggingar, endurgerð bygginga, byggingar í rekstri og nú nýlega einnig vistvottun á innviðum. EFLA hefur tekið þátt í fjölda verkefna sem snúa að BREEAM vottunum og sinnt þar ýmsum hlutverkum, m.a. sem hönnuðir og umhverfisráðgjafar, en einnig sem matsaðilar fyrir vistvottun. Þverfagleg þekking innan EFLU nýtist afar vel til að takast á við jafn víðfeðm verkefni og vistvottanir skipulagsáætlana eru.
Hvað er BREEAM og BREEAM fyrir skipulag (e. Communities)
BREEAM stendur fyrir British Research Establishment Environmental Assessment Method og er alþjóðlegt vistvottunarkerfi sem býður upp á vottanir fyrir mismunandi stig lífsferils bygginga sem og annarra mannvirkja, þ.e. nýbygginga, endurhönnun bygginga, rekstur bygginga, uppbyggingu innviða (brúa, vega o.fl.) og skipulagsáætlana.
Í vottunarkerfinu er lögð áhersla á að tekið sé tillit til þriggja stoða sjálfbærni, þ.e. samfélags, efnahags og umhverfis. BREEAM vottunarakerfið er sniðið að þörfum nútímans þar sem áhersla er lögð á vistvænar og sjálfbærar lausnir. Vottun frá þriðja aðila tryggir óhlutdrægt og gegnsætt kerfi.
Á Íslandi er töluverð reynsla af BREEAM vottunum fyrir byggingar og fara nú m.a. nýbyggingar á vegum Framkvæmdasýslunnar og Ríkiseigna (FSRE), Reykjavíkurborgar og ýmissa einkaaðila í slíkt vottunarferli. Að auki hefur byggst upp reynsla með aðrar BREEAM vottanir hérlendis, svo sem þeim er snúa að innviðum, rekstri bygginga og enduruppbyggingu bygginga.
Sömu sögu má segja um BREEAM Communities (gjarnan kallað BREEAM fyrir skipulag) en fjöldi þeirra skipulagsáætlana sem farið hafa í vottunarferli hefur aukist mjög hratt á undanförnum árum. Skipulagsáætlanir fyrir Urriðaholt og Vífilsstaðaland í Garðabæ eru BREEAM vottaðar og stefnir Reykjavíkurborg að því að allir skipulagsáfangar Ártúnshöfða fari í slíka vottun.
Hver er ávinningur BREEAM fyrir skipulag
Áður en haldið er lengra er gott að velta fyrir sér af hverju æskilegt sé að vistvotta skipulagsáætlanir og af hverju BREEAM sé heppilegt vistvottunarkerfi.
Fyrir liggur að hanna má og skipuleggja á vistvænum hátt án þess að styðjast við vistvottunarkerfi. Reynslan sýnir þó, bæði við vottun bygginga og skipulags, að það aðhald sem matskerfið veitir hvetur til þess að leitað sé allra leiða til að ná umhverfisárangri í verkefnum og finna bestu leiðina til þess. Ef ekki er unnið eftir fyrir fram skilgreindu kerfi heldur eingöngu ákveðnum viðmiðum um visthæfi eru líkur á að slakað sé á kröfum og að árangurinn verði ekki jafn góður og með vottun.
Án vottunar er auðveldara að gagnrýna og efast um visthæfi verkefnisins þar sem ferlið verður ekki eins gegnsætt. Því eru viðurkenndar vottunaraðferðir og vottunarstaðall eins og BREEAM mun árangursríkari kostur en eingöngu sú stefna að hanna vistvænt.
Viðmið vistvottunarkerfisins eru sett þannig fram að þau eru markmiðsdrifin og miðla aðgerðum og lausnum sem tryggja að tekið sé tillit til sjálfbærniviðmiða án þess að takmarka frelsi við skipulagsgerð og hönnun. Þá skilgreinir það mælikvarða til að mæla sjálfbærni og gefin eru stig eftir því hversu vistvænt skipulagið er.
Kerfið heldur einnig utan um framþróun og er ávallt í samræmi við nýjustu upplýsingar og þekkingu. Eftir því sem verkefnum sem fara í gegnum BREEAM fjölgar verður til grundvöllur til að bera saman skipulagsverkefni á hlutlausan og gegnsæjan hátt í gegnum þriðja aðila.
Einn af lykilþáttum BREEAM er að tryggja samráð við almenning og hagaðila í gegnum ferlið með því markmiði að skipulag þjóni samfélaginu sem best, ferli sem getur oft verið snúið ef ekki er fylgt fyrir fram skilgreindu verklagi.
Það er okkar reynsla að vottunarferlið hafi jákvæð áhrif og feli í sér ávinning sem leiðir til betra skipulags.
Hvenær er æskilegt að nota BREEAM fyrir skipulag
Leggja þarf mat á hvert verkefni fyrir sig og greina mögulegan ávinning þess að það fari í gegnum vistvottunarferli. Ekki er miðað við töluleg viðmið, s.s. stærð skipulagssvæðis eða umfang uppbyggingar þegar litið er til mögulegs ávinnings kerfisins, heldur frekar horft á fyrirkomulag svæða og fyrirhugaðrar uppbyggingar. BREEAM fyrir skipulag tryggir ákveðið verklag þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi og er því gott verkfæri fyrir alla skipulagsvinnu, þó óhjákvæmilega henti það sumum skipulagsverkefnum betur en öðrum. Í leiðbeiningum BREEAM eru eftirfarandi spurningar lagðar fram til að meta hvort BREEAM eigi við fyrirhugað skipulag:
- Mun skipulagið hafa víðtæk áhrif á samgöngur, s.s. felur uppbyggingin í sér nýja samgönguinnviði eða umtalsverð áhrif á núverandi samgöngukerfi?
- Mun skipulagið fela í sér aukið álag á nærliggjandi almenningsrými?
- Mun stefna skipulagsins skapa fjölbreytt störf innan svæðisins, auka félagslega blöndun eða bæta vistfræðileg gildi?
- Fela skipulagsáformin í sér uppbyggingu sem getur aukið álag á þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, skóla, verslanir, staði til að iðka trú, eða aðra álíka aðstöðu og þjónustu?
- Er skipulagsáætlunin af þeirri stærðargráðu að huga þarf að samfélagsdrifnum lausnum fyrir innviði, s.s. orku-, vatns- og sorpþjónustu? Eða eru tækifæri til að samnýta aðra innviði innan eða við svæðið?
- Er skipulagið líklegt til að hafa umtalsverð samfélagsáhrif?
Ef svarið við einhverjum spurninganna hér að ofan er já er vottun skv. BREEAM fyrir skipulag tilvalin leið til að tryggja og auka gæði skipulagsvinnunnar og stuðla að sjálfbærri uppbyggingu. Hérlendis hafa deiliskipulagsáætlanir gjarnan farið í gegnum vottunarferlið en einnig þekkist að stærri skipulagsáætlanir, s.s. rammahlutar aðalskipulags, fari í gegnum fyrsta stigs vottun, sjá umfjöllun um fyrsta stigs og fullnaðarvottun hér á eftir.
Hvernig virkar BREEAM fyrir skipulag
BREEAM samanstendur af fjölda atriða sem hvert tekur til einstakra þátta er snúa að sjálfbærni skipulagsáætlana. Í heildina samanstendur kerfið af 40 atriðum, þar af eru 12 atriði sem skipulagáætlanir verða að uppfylla en önnur atriði eru uppfyllt eins og við á hverju sinni. Þar af leiðandi getur verið mismunandi hver af þessum atriðum hvert skipulag uppfyllir, en fer það eftir uppbyggingu hverju sinni. Atriðunum er skipt upp í fimm meginflokka:
- Samráð og stjórnun
- Félagsleg- og efnahagsleg velferð
- Auðlindir og orka
- Landnotkun og vistfræði
- Samgöngur og aðgengi
Einnig er hægt að sækja sérstaklega stig sem snúa að nýsköpun.
Vottuninni er skipt upp í þrjá áfanga:
- Mótun stefnu (e. establishing the principles).
- Skipulag svæðisins (e. determining the layout).
- Skipulagshönnun (e. designing the details).
Innan hvers áfanga er fjöldi atriða sem falla innan áðurnefndra flokka, en þau atriði sem allar skipulagsáætlanir þurfa að uppfylla tilheyra fyrsta áfanganum. Í kerfinu er hægt að fá tvenns konar vottun, annars vegar fyrsta stigs vottun og hins vegar fullnaðarvottun.
Fyrsta stigs vottun metur eingöngu hvort skipulag uppfylla ákveðin gunnskilyrði, þ.e. engin einkunn er gefin fyrir skipulagið enda liggja ekki nægilegar upplýsingar fyrir til að meta sjálfbærni þess.
Í fullnaðarvottun er tekið til allra atriða kerfisins og fær skipulag einkunn í samræmi við þann fjölda atriða sem það uppfyllir. Í sumum tilfellum er stærri svæðum skipt upp og sér ferli unnið fyrir hvern áfanga, en einnig þekkist að stærri svæði fari í gegnum fyrsta stigs vottun og einstaka áfangar innan þess fái í framhaldinu fullnaðarvottun.
Aðili með matsmannsréttindi frá BRE (matsmaður) fer yfir öll gögn sem sýna eiga fram á hvernig vistvottunarkröfur BREEAM eru uppfylltar - svokölluð sönnunargögn. Matsmaðurinn metur hvort skilyrði séu uppfyllt og útbýr skýrslu með sínu áliti og sendir til BRE Global til endanlegrar vottunar.
Reynsla og þróun BREEAM fyrir skipulag á Íslandi
Árið 2015 fékk Rammaskipulag Urriðaholts BREEAM vottun og var það fyrsta skipulagið til að hljóta slíka vottun á Íslandi. Síðan þá hafa allar deiliskipulagsáætlanir í Urriðaholti verið vottaðar, rammaskipulag Vífilsstaðalands sem og einstaka deiliskipulagsáætlanir innan Vífilsstaðalands og unnið er að vottunum fyrir fleiri skipulagsáætlanir, s.s. á Ártúnshöfða.
Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts hefur sagt frá sinni reynslu og upplifun af vottunarferlinu, sem endurspeglar á margan hátt þá reynslu sem mismunandi aðilar hafa af kerfinu:
„Skipulagið fyrir Urriðaholt var hannað frá fyrstu stigum með virðingu fyrir umhverfinu og með áherslu á sjálfbærni. Skipulagsferlið og vottunin er staðfesting á þeirri góðu vinnu og bættri hönnun svæðisins til framtíðar. BREEAM Skipulag skemað er nákvæmur tékklisti sem tryggir gæði hönnunar og aðstoðar hönnunarteymið í skipulagsferlinu.“
Skipulag Urriðaholts hefur fengið mikla umfjöllun hérlendis sem og erlendis og unnið til erlendra skipulagsverðlauna. Fjölgun skipulagsáætlana sem fer í gegnum BREEAM vottunarferlið gefur tilefni til þess að ætla að uppbyggingaraðilar og sveitarfélög líti vottunarferlið jákvæðum augum. Með því að gera kröfu um að skipulagáætlanir fari í gegnum BREEAM vottun geta sveitarfélög tryggt að þeirra landsvæði sé skipulagt með sjálfbærni í huga og þannig nýtt vottunina sem ákveðið gæðaeftirlit.