Árangursríkt ár að baki

31.12.2024

Fréttir
Fólk að sitja og hlusta

Starfsfólk EFLU.

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, lítur með stolti yfir árið 2024, ár sem markaðist af miklum árangri, fjölbreyttum verkefnum og framúrskarandi vinnu starfsfólks. Rekstur EFLU gekk vel á árinu, bæði á Íslandi og í erlendum dótturfélögum, og staða fyrirtækisins styrktist enn frekar á öllum markaðssvæðum.

Fjölbreytt verkefni og nýir áfangar

Á árinu 2024 tókst EFLA á við fjölda krefjandi og áhugaverðra verkefna. Meðal þeirra má nefna verkefni tengd fiskeldi, enda hefur EFLA undirbúið vöxt þeirrar atvinnugreinar í mörg ár. Áframhaldandi eftirlitsverkefni fyrir Nýja Landsspítala, hönnun Coda Terminal, undirbúningur Sundabrautar, hönnun Fossvogsbrúar og verkefni tengd ýmsum baðlónum víðs vegar um landið. Þá fengum við mörg ný krefjandi orkuflutningsverkefni erlendis. „Síðast, en ekki síst, verkefni tengd náttúruhamförunum á Reykjanesi, þar sem starfsmenn okkar og fleiri fyrirtækja hafa unnið hvert þrekvirkið á fætur öðru við aðstæður sem eiga sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu og þó víðar væri leitað“ segir Sæmundur.

Starfsmannafjöldi EFLU á Íslandi er nú um 430 manns og hefur aldrei verið hærri. Starfsemi erlendu dótturfélanna jókst einnig og starfa nú um 120 manns innan þeirra. Verkefni EFLU-samstæðunnar voru á fjórða þúsund á árinu og aldrei hefur fjölbreytnin verið meiri. „Við héldum áfram sókn okkar á íslenskum markaði og náðum afar góðum árangri í erlendum verkefnum, þar sem við sjáum mikla vaxtarmöguleika,“ segir Sæmundur.

Andlitsm

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU.

Starfsfólkið í lykilhlutverki

Á sviði orkuflutninga náði EFLA mikilvægum samningum í Svíþjóð, Noregi, Póllandi og Frakklandi. „Við höfum byggt upp sterka stöðu á þessum mörkuðum og sjáum fram á áframhaldandi vöxt á komandi árum,“ bætir hann við. Einnig hefur fyrirtækið lagt áherslu á fiskeldisverkefni, atvinnugrein sem hefur verið í örum vexti og EFLA hefur undirbúið sig fyrir í mörg ár.

Það sem stendur þó upp úr hjá framkvæmdastjóranum er framlag starfsfólks EFLU. „Samheldnin, krafturinn og gleðin sem einkennir þennan hóp eru einstök. Það er ekki sjálfgefið að vel gangi í rekstri eins og okkar, en starfsfólkið okkar hefur staðið sig með stakri prýði,“ segir Sæmundur.

Framundan er spennandi ár

Hann horfir bjartsýnn til ársins 2025. „Við ætlum að halda áfram að vera fyrirmynd þekkingarfyrirtækja og brautryðjandi við úrlausn brýnna samfélagsverkefna,“ segir hann. Markmiðið er að viðhalda vexti, efla umhverfisvænar lausnir og þróa áfram þjónustu sem mætir þörfum samtímans og framtíðar.

Að lokum vill Sæmundur senda kveðju til viðskiptavina og starfsfólks: „Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og þakka kærlega fyrir samstarfið á árinu 2024. Ég hlakka til að takast á við árið 2025 með ykkur, fullur eftirvæntingar um spennandi áskoranir og verkefni,“ segir hann að lokum.