Við viljum alltaf taka þátt í samtali og tækifærin til að eiga í samtali um mikilvæg málefni eru víða. Starfsfólk EFLU tók þátt í fjölmörgum ráðstefnum, málþingum og fundum á árinu.
Annáll 2023 | Hitaveita, hafnir og Hringrásarveggur
Þar á meðal var Steinsteypudagurinn, Viðskiptaþing, Dagur stafrænna mannvirkja, Sjávarútvegsráðstefnan og World Geothermal Congress.
Kristinn Arnar Ormsson, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU, og Kolbrún Reinholdsdóttir, sem leiðir teymi orkumálaráðgjafar EFLU, tóku í febrúar þátt í opnum fundi Landsvirkjunar um aflstöðu raforkukerfisins og áhrif á þróun vindorku.
Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá EFLU, stýrði í febrúar Vinnustofu Hringborðs Hringrásar um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði. Þar var einnig Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku- og umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, sem er verkefnisstýra Hringrásar verkefnisins.
Fulltrúar EFLU tóku þátt á Fagþingi Samorku í hita-, vatns- og fráveitum sem haldið var á Selfossi í maí. Þau Snærós Axelsdóttir, Reynir Snorrason, Elín Inga Knútsdóttir og Eva Yngvadóttir fluttu öll erindi á þinginu.
Port, Pólland og pallborðsumræður
Reynir Sævarsson, fyrirliði nýsköpunar og þróunar hjá EFLU, tók þátt í pallborðsumræðum um fráveitu og hringrásarhagkerfið á viðburði Orkuveitu Reykjavíkur. Viðburðurinn var hluti af dagskrá Nýsköpunarviku.
Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri á orkusviði EFLU, var þátttakandi á tveimur ráðstefnum með stuttu millibili í júní. Sú fyrri, Germany-Iceland Clean Energy Summit, einblíndi á hreina orku í Þýskalandi og á Íslandi. Sú seinni var haldin í íslenska sendiráðinu í Varsjá í Póllandi og var Piotr Gburczyk, framkvæmdastjóri EFLU í Póllandi, einnig meðal þátttakenda. Umfjöllunarefnið var orkumál.
Dr. Majid Eskafi, sérfræðingur í hafnarverkfræði hjá EFLU, tók þátt í Nor-Shipping 2023 sem haldin var í Lillestrøm í Noregi snemma í júní. Majid sat fundi með fulltrúum fyrirtækja í greininni og miðlaði upplýsingum um lausnir EFLU á alþjóðlegum vettvangi.
Myndmæling, málþing og mannvirkjagerð
Sérfræðingar EFLU mættu á stöðufund um vistvæna þróun í mannvirkjagerð á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð í ágúst. Alexandra Kjeld, ritari og varaformaður Grænni byggðar og umhverfisverkfræðingur á samfélagssviði EFLU, tók þátt í pallborðsumræðum um vistvænar byggingarvörur. Þá stýrði Dr. Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku- og umhverfisfræðingur á samfélagssviði EFLU, pallborðsumræðunum sem kölluðust Hreyfiafl til framtíðar.
Alexandra Kjeld hélt einnig erindi á rafrænu málþingi um stöðu vistvænnar innviðauppbyggingar á vegum norrænna systursamtaka Grænnar byggðar. Þar fjallaði hún um núverandi sjálfbærnistöðu innviða hérlendis.
Í október fór fram Málþingið „Menningararfur í sýndarheimum“ í Veröld, húsi Vigdísar. Þröstur Thor Bragason, miðlunarfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um verkefnið ,,Stafrænar styttur“ sem var unnið í samstarfi við safn Einars Jónssonar. Verkefnið snérist um að setja fram þrívíð módel af höggmyndum Einars og birta á vefnum í formi stafrænna viðburða og fjarfræðslu. EFLA sá um myndmælingu og framsetningu þrívíðra módela.
Hafið, hagkerfi og Hringborð Norðurslóða
EFLA stóð fyrir vel heppnuðu málþingi, „Shipping Toward the Green Future“, á ráðstefnunni Arctic Circle sem fjallaði um orkuskipti í höfnum. Fyrirlesarar á viðburðinum voru Majid Eskafi og Jón Heiðar Ríkharðsson frá EFLU, auk Þorsteins Mássonar frá Bláma, Hilmars Péturs Valgarðssonar frá Eimskipafélagi Íslands og Robert Howe frá Bremenports í Þýskalandi. Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur hjá EFLU, var málstofustjóri. Fullt var út ýr dyrum á málþinginu og líflegar umræður sköpuðust í kjölfar erindanna.
Elín Þórólfsdóttir, arkitekt og umhverfis- og auðlindafræðingur á samfélagssviði EFLU, kynnti Hringrásarvegginn, sem er samstarfsverkefni EFLU, Basalt arkitekta og Jáverks, á stofnfundi Hringvangs í desember. Hringvangur er sjálfstæður vettvangur fyrir samskipti um hringrásarhagkerfi í byggingariðnaði.