Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri orku hjá EFLU, og Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélags hjá EFLU og fulltrúi í Loftslagsráði Íslands, tóku þátt í COP29 ráðstefnunni í Bakú. Ráðstefnan var haldin dagana 13.-16. nóvember.
Víðari og betri skilningur
Þær Helga og Birta segja að þátttakan í COP29 í Azerbaijan hafi verið mjög áhugaverð og skilji hún eftir víðari og betri skilning á þeim víðtæku kerfisbreytingum sem þurfa að eiga sér stað á heimsvísu til að takast á við loftslagsvána. Tæknin er þekkt en skala þarf hana upp, veita fjármagni frá opinberu fé og einkaaðilum og passa þarf að umskiptin séu réttlát. Reynslan mun hjálpa okkur að stíga enn fastar inn í lausnir fyrir íslenskt samfélag í átt að kolefnishlutleysi.
Helstu áherslur ráðstefnunnar
Megináhersla COP29 að þessu sinni var á fjármögnun loftslagsaðgerða en kastljósinu einnig beint að helstu áskorunum og tækifærum í loftslagsmálum með áherslu á nýsköpun, jafnrétti og alþjóðlegt samstarf.
Þar var fjallað ítarlega um hvernig mætti fjármagna orkuskipti frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orku og tryggja að þær lausnir sem eru tiltækar yrðu skalaðar upp. Þátttakendur lögðu áherslu á að yfirvinna fjármögnunarhindranir, einfalda flókin leyfisferli og vinna að kerfisbreytingum sem orkuskipti kalla á. Vetni sem rafeldsneyti var í kastljósinu sem ein af helstu lausnunum til framtíðar.
Samfélagslegur þáttur var einnig í forgrunni, þar sem rætt var hvernig tryggja mætti réttlát umskipti sem tækju mið af þörfum allra þjóðfélagshópa. Sérstök áhersla var lögð á stuðning við fátækari lönd, bæði í formi fjármagns og tækniaðstoðar, til að auðvelda þeim innleiðingu endurnýjanlegrar orku. Samvinna og samþætting allra hagsmunaaðila var talin lykill að árangri.
Samvinna og réttlát umskipti
Endurnýjanlegir orkugjafar, eins og vind- og sólarorka, voru í brennidepli til framleiðslu á rafeldsneyti og þá sérstaklega vetni. Sérfræðingar lögðu áherslu á þörfina fyrir skýra stefnumótun og þróun sveigjanlegra orkukerfa til að tryggja áreiðanleika.
Þar var einnig lögð áhersla á fjármögnun loftslagsaðgerða. Orkunýtni var nefnd sem áhrifarík lausn til að draga úr losun, en jafnframt var kallað eftir samræmingu fjármagnsáætlana og þróun gagnsærra kolefnismarkaða til að hraða aðgerðum. Kolefnisskattar á losun voru til umræðu sem og hlutverk bindingar koldíoxíðs með tæknilegum sem og náttúrulegum lausnum.
Samfélagslegur stuðningur og jafnrétti voru aukinheldur á meðal þess sem þátttakendur ræddu. Áhersla var lögð á að orkuskipti verði réttlát fyrir alla samfélagshópa, m.a. með verkefnum til að styrkja konur í orkugeiranum og auknum samfélagslegum stuðningi .
Til þess að þetta sé mögulegt þarf samstarf milli hagsmunaaðila. Sterkt samstarf milli einkaaðila og opinberra aðila við fjármögnun verkefna var undirstrikað sem lykill að kerfisbreytingum.
Mikilvægi aðgerða
COP29 ráðstefnunum er skipt upp í þrjú meginsvæði. Fyrst eru svæði samninganefnda, þar sem stjórnvöld funda og vinna að alþjóðlegum loftslagssamningum. Fyrir utan þetta er svæði landsskála og samtaka, þar sem fjölbreytt dagskrá fer fram með kynningum og pallborðsumræðum. Þessi svæði skapa mikilvægan vettvang fyrir skoðanaskipti og miðlun hugmynda milli ríkja og hagsmunaaðila. Hver skáli hefur pláss fyrir á bilinu 30-60 manns og er því um að ræða góðan vettvang til samskipta og til að mynda tengsl. Þriðja svæðið er svo vettvangur fyrirtækja, þar sem þau kynna sjálfbærni- og nýsköpunarverkefni sín og leita samstarfs. Þetta er eina svæðið sem er opið almenningi. Þátttakendur nýta sér þessi svæði til að kynnast nýjungum og mynda tengslanet sem styður við framgang loftslagsaðgerða.
Meginstef ráðstefnunnar var hvernig allar þjóðir þurfa að taka höndum saman við hið stóra verkefni að vinna að orkuskiptum, takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu. Einnig að loftslagsmál krefjast heildrænna lausna sem kalla á mikla samvinnu og samtal sem sameina tæknilausnir, fjármálalegar lausnir og samfélagslegar breytingar til að tryggja sjálfbæra framtíð. Ráðstefnan dró fram nauðsyn hraðari og markvissari aðgerða, ekki aðeins á tæknilegum grunni, heldur með sterka áherslu á samfélagslega þáttinn og fjármögnun aðgerðanna.
- 1 / 4
- 2 / 4
- 3 / 4
- 4 / 4