Af hverju grætur húsið mitt?
Við venjulegt heimilishald fjögurra manna fjölskyldu getur rakainnihald og vatnsmagn í lofti aukist um að minnsta kosti 40 lítra á viku. Heitt loft getur haldið þessum raka í meira magni en kalt loft. Þessi raki í loftinu getur síðan orðið að vatni við það að komast í snertingu við kaldan flöt. Hver þekkir ekki að glerflaska sem er tekin út úr ísskáp „grætur“ á yfirborðinu þegar við tökum hana út og þá sérstaklega ef heitt og rakt er í kringum okkur.
Það sama gerist á veggjum, við glugga og rúður í húsunum okkar. Á veturna þegar kalt er úti kólna veggfletir og rúður og rakinn sem er í heitu röku lofti hjá okkur innandyra nær þá að dagga, eða falla út á þessum flötum, líkt og í glerflöskunni. Í einhverjum tilfellum má hreinlega sjá vatn við glugga og oft telur húseigandi að gluggarnir hljóti að leka. Þegar betur er að gáð má merkja muninn á því að þessi raki kemur ekki eingöngu við slagveður eða í úrkomu heldur á köldum vetrardögum.
Heitt loft heldur raka í meira magni en kalt loft. Þegar rakinn í loftinu kemst í snertingu við kaldan flöt verður hann að vatni og við það grætur yfirborðið.
Rakaþétting
Helstu ummerki eru að við glugga má sjá vatn eða móðu. Í hornum við útveggi liggja taumar eða málning byrjar að bólgna. Í verstu tilfellum er komin svört, græn, grá eða bleik slikja á útvegg, við rúður eða glugga.
Þarna leynist stundum mygla eða aðrar örverur sem eingöngu ná að þrífast vegna raka. Gró myglu eru alls staðar og eru ekki til ama fyrr en þau ná nógu miklum raka til þess að vaxa og mynda myglusvepp.
Loftraki skiptir máli innandyra
Hér á Íslandi einangrum við gjarnan húsin okkar að innan og það byggingarlag eykur líkur á kuldabrúm. Kuldabrú er kaldur flötur innandyra þar sem kuldann leiðir inn. Þessa fleti er helst að finna þar sem gólf- eða loftplata mætir útvegg. Af þessum sökum er mikilvægt að átti sig á því að þessi veikleiki er til staðar og að við þurfum að gæta að því hver loftrakinn er inni hjá okkur. Að sama skapi getur heitt og rakt loft í einhverjum tilfellum þéttst og grátið innan í veggjum á milli einangrunar og steypu. Þessar afleiðingar of mikils rakaálags sjáum við ekki með berum augum.
Í þéttum húsum þar sem gluggar eru opnaðir sjaldan og loftskipti takmörkuð getur orðið uppsöfnun á koltvísýringi sem við gefum frá okkur og öðrum efnum sem fylgja húsbúnaði, hreinlætisvörum og þrifum.
Þessi pistill er alls ekki tæmandi og margir aðrir þættir sem við þurfum að huga að en honum er ætlað að veita góð ráð til að bæta loftgæði á heimilum.
10 ráð til að bæta loftgæði á heimilum
- Huga að loftraka
Loftraki á heimilum hækkar við inniveru fólks, t.d. við þvotta, þurrkun á þvotti, bað- og sturtuferðir og við mataseld. - Gott er að hafa loftrakamælir á hverju heimili
Þannig má læra hvaða hegðun eða aðgerðir innanhúss eyka loftraka og hvenær er þörf á að bregðast við. Loftrakamælar fást m.v. í byggingarvöruverslunum. - Huga að loftraka innanhúss
Loftraki ætti að vera undir 40% og jafnvel 30% þegar er kalt er úti eins og á veturna en hærri á sumrin. Þetta er þó háð húsagerð og aðstæðum hverju sinni, en móða á glugga eða spegli er þó viðvörun. - Loftskipti þurfa að vera regluleg
Þumalputtaregla er að skipta um loft a.m.k tvisvar á dag, útiloft inn fyrir inniloft.
Við það að opna glugga verða ekki endilega loftskipti það þarf að gusta í gegn. - Gæta að loftflæði og undirþrýstingi
Útsog í íbúðum þarf að hafa loftflæði inn á móti til að mynda ekki undirþrýsting. Undirþrýstingur getur aukið leka t.d. inn með gluggum og getur togað loft frá þakrými eða innan úr veggjum og skert loftgæði. Þegar opnað er upp í vindinn er undirþrýstingur takmarkaður, öfugt ef opnað er hlémegin. - Hafa glugga opna í svefnherbergjum á nóttinni
Í svefnherbergjum ætti að vera rifa á rúðu yfir nóttina, það bætir einnig svefn og loftgæði. - Staðsetning á gardínum
Gardínur ættu ekki að vera þétt við rúður eða loka alveg loftflæði við rúður. - Staðsetning á húsgögnum
Húsgögn, rúmgaflar og aðrar mublur ættu ekki að liggja þétt að útvegg. - Þrífa reglulega rúður og í hornum
Ryksöfnun við rúður eða í hornum getur aukið líkur á að örverur nái að vaxa upp við raka - Þurrka upp allan raka strax
Umfram raka ætti ávallt að þurrka upp. Við rúður á morgnana eða annars staðar.
Viltu vita meira?
Ef þú vilt vita meira um þjónustu EFLU á sviði fasteigna, viðhalds og ráðgjafar vegna rakaskemmda hafðu þá samband við okkur. Einnig má sjá nánar um þjónustuna á vefnum okkar: